Prédikun flutt 1. sd. eftir á páska 24. apríl 2022 í Neskirkju fyrir Úkraínufólk.

Guðspjall: Markús 16:1-7.
Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: “Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?” En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust. En hann sagði við þær: “Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.”
Biskup Íslands
Agnes M. Sigurðardóttir

Komið þið sæl og gleðilega páskahátíð!
Það virðist margt geta gerst sem breytir lífi okkar og aðstöðu. Hverjum hefði dottið það í hug á páskunum í fyrra að þið væruð saman komin í kirkju í Reykjavík á Íslandi á næstu páskum?
Ísland er eyja í Atlandshafi. Hér hefur fólk búið í um 1000 ár. Hér er ekki her og ekki hefur verið ráðist inn í landið okkar af erlendum her. Við þekkjum stríðsástand aðeins af afspurn. Við vitum hins vegar að við eigum að taka vel á móti þeim sem hingað koma og ég vona að þið hafið fundið það þó örugglega megi gera betur.
Á páskum minnumst við upprisu Krists. Upprisan er lykilatriðið í kristinni trú. Og trúna eigum við sameiginlega. Kristið fólk út um allan heim fagnar upprisunni og heldur hátíð á páskum. Við í okkar kirkjudeild fyrir viku og þið í ykkar kirkjudeild í dag.
Mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar gengu Maríur tvær og Salóme að gröfinni til að smyrja vin sinn látinn. Eins og svo oft í lífi okkar mannanna höfðu þær ekki hugmynd um það sem beið þeirra. Þegar við vöknum að morgni göngum við flest til okkar daglegu verka en skyndilega getur allt breyst. Vani hversdagsins ekki lengur fyrir hendi og við staðið frammi fyrir nýjum veruleika. Þetta þarf nú varla að taka fram hér því þið hafið sjálf flest lifað þann veruleika.
Konurnar þrjár vöknuðu snemma til nýs dags. Þær voru sorgmæddar vegna dauða vinar síns. Þær voru áhyggjufullar því þær efuðust um getu sína til að lyfta þungum steininum frá gröfinni.
Flestir kynnast sorg og áhyggjum á lífsleið sinni. Ég geri ráð fyrir að sorg, áhyggjur, kvíði, jafnvel reiði séu í huga ykkar núna sem hafið þurft að flýja fallega heimalandið ykkar undan stríðsátökum og grimmd. Þið eruð hér en margir ástvinir ykkar þar.
Jesús sendi konurnar frá gröfinni til að segja frá upprisunni. Hann var með þeim. Hann birtist lærisveinunum og fleira fólki. Hann birtist hverjum þeim er trúir að Kristur sé sannarlega upprisinn. Og hann er með mér og þér eins og hann lofaði.
Á helgri páskahátíð snúum við okkur að ljósi hans, friðarhöfðingjans, í heimi sem einkennist af myrkri og átökum. Upprisu hans er fagnað á páskum í kirkjum víða um heim, í friðsömum löndum, í fátækum löndum, í ríkum löndum, í stríðshrjáðum löndum. Í einni páskakveðju sem mér barst er mynd af sólsetri og er gaddavír í forgrunni myndarinnar. Fyrir neðan myndina stendur: „Sólsetur og gaddavír fyrir girðingu nálægt landamærastöð milli Slóvakíu og Úkranínu. Yfir þessa landamærastöð fara á hverjum degi um 10.000 flóttamenn frá Úkraínu en trúar- og mannúðarsamtök veita fólki tafarlausan stuðning þegar það kemur til Slóvakíu. Þetta er sláandi mynd og gott að vita af fólki sem kemur til hjálpar.
Þær voru örvæntingarfullar konurnar þrjár sem gengu að gröf Jesú snemma morguns. Við finnum fyrir þessari sömu örvæntingu í dag þegar við heyrum fréttir heimsins nær og fjær. Víða má sjá merki eyðileggingar og dauða.
Í hinu grimmilega stríði í heimalandi ykkar birtist allt það ljóstasta og versta sem í manninum býr.
Samt fögnum við á páskahátíðinni. Kirkjur heimsins halda áfram að flytja gleðiboðskapinn og vonarboðskapinn um að Kristur er upprisinn, mitt í þrengingunum og vonleysinu sem víða blasir við. Boðskapurinn sem konurnar heyrðu við gröfina heyrist enn: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér“. Jesús var krossfestur en er upprisinn frá dauðum. Lífið hefur sigrað og lífið hefur sigrað dauðann.
Þessi boðskapur gefur okkur styrk, kraft, trú og von. Þrátt fyrir illsku heimsins, grimmd mannsins og oft á tíðum vonlausar aðstæður gefur upprisuboðskapurinn okkur hugrekki til að horfast í augu við veruleikann eins og hann er og takast á við verkefnin hvort sem þau eru auðveld eða erfið. Líka þau sem virðast óyfirstíganleg og draga úr okkur kjark.
Í huganum tökum við okkur stöðu við tóma gröfina og hlustum á rödd engilsins sem talaði til kvennanna. Þá gerist það undur að við verðum þess áskynja að mitt í myrkri heimsins eygjum við ljós og líf, gleði, kærleika og ný tækifæri.
Upprisa Krists minnir okkur á að Guð lífsins sigrar synd og dauða og allt sem afskræmir lífið, tortímir mönnum og eyðileggur sköpunarverkið.
Upprisa Krists er uppspretta nýs lífs sem endurskapar og endurnýjar allt. Hún læknar, gerir heilt það sem brotið er og endurnýjar það sem gamalt er. Hún færir gleði þar sem sorgin býr, ljós þeim sem í myrkri býr, frelsun hinum kúgaða og leiðir heiminn til einingar og sáttar.
Upprisa Krists gefur okkur tækifæri til nýs upphafs. Í brotnum heimi þar sem margir þjást er Kristur meðal okkar og vitjar okkar eins og lærisveianna forðum og segir við okkur eins og þá „friður sé með þér“. Þessi friðarkveðja er ekki bara orð heldur einnig bæn um að við gerum hana að veruleika í lífi okkar og heimi.
Sagan um tómu gröfina, konurnar sem þangað komu til að vinna kærleiksverkið að smyrja líkama látins vinar eins og siður var í landi þeirra og orðin sem þær fengu að heyra um upprisu Jesú gengur lengra en mannleg skynsemi nær yfir. Um leið gefur hún okkur innsýn í lítinn hluta guðdómsins. Konurnar þrjár sem höfðu staðið við gröfina höfðu væntanlega allar líka orðið vitni að kraftaverkum Jesú og heyrt dæmisögur hans og fylgt honum eins og margir gerðu þegar hann kom í bæi þeirra. Þær grétu látinn vin sinn og það sem hann hafði gefið þeim, von um annan veruleika en þær höfðu áður kynnst. Veruleika þar sem allir nutu virðingar og voru jafngildir samfélagsþegnar. Jesús hafði talað við þær þeim var treyst fyrir því að flytja tíðindin sem breyta lífi hverrar þeirrar manneskju sem heyrir þau og meðtekur, breytir samfélagi manna sem tileinka sér gildin hans og boðar mannúð og mildi.
Það er stutt milli gráts og hláturs. Það er stutt milli gleði og sorgar. Lýðurinn sem fagnaði og söng á Pálmasunnudag, hrópaði krossfestu hann á föstudaginn langa. Öfund og ofbeldi lituðu þann myrka dag. En sagan endaði ekki í myrkri. Frétt dagsins um upprisu Jesú varpar nýju ljósi á ofbeldi og hatur. Dauðinn á ekki síðasta orðið. Gröfin var tóm. Lífið hafði sigrað dauðann, ljósið hafði rekið myrkrið á brott. Gæskan er öflugri en illskan.
Páskarnir boða trúfesti Guðs og kærleika. Þó allt bregðist, bregst Guð ekki.